AbstractsBiology & Animal Science

Ónæmismeðferð gegn sumarexemi í hestum. Þróun aðferða til að tjá og hreinsa endurraðaða ofnæmisvaka í skordýrafrumukerfi og notkun þeirra við að meta árangur ónæmismeðferðar

by Sara Björk Stefánsdóttir 1990




Institution: University of Iceland
Department:
Year: 2015
Keywords: Líf- og læknavísindi
Record ID: 1221622
Full text PDF: http://hdl.handle.net/1946/21603


Abstract

Sumarexem er húðofnæmi af gerð I í hestum sem einkennist af framleiðslu á IgE mótefnum. Einkenni sjúkdómsins eru exem og kláði sérstaklega í fax- og taglrótum, jafnvel sáramyndun og sýkingu í sárum. Sumarexem er dýravelferðarmál og vandamál fyrir hrossaútflutning þar sem tíðni þess er mun hærri hjá útfluttum hestum en hjá íslenskum hestum fæddum erlendis. Sumarexem orsakast af biti smámýs (Culicoides spp.) en þetta mý lifir ekki á Íslandi. Ofnæmisvakarnir eru prótein sem hestarnir mynda ofnæmisviðbrögð gegn og eru upprunnin í bitkirtlum flugnanna. Þrettán ofnæmisvakar hafa verið einangraðir úr þremur smámýstegundum, C. sonorensis, C. nubeculosus og C. obsoletus, tjáðir í bakteríum (E.coli) og hreinsaðir. Ferill sjúkdómsins hefur verið skilgreindur og tilraunir til ónæmismeðferðar eru í gangi. Ofnæmisvakarnir sem hreinsaðir eru úr bakteríum henta illa fyrir sum ónæmispróf sem eru nauðsynleg til að mæla árangur meðferðar. Því er nauðsynlegt að framleiða vakana í heilkjörnungum. Þar sem þeir eru upprunir úr bitkirtlum skordýrs er eðlilegast að tjá þá í skordýrafrumum. Markmið rannsóknarinnar var að tjá fjóra aðalofnæmisvaka; Cul n 1, Cul n 2, Cul n 4 úr C. nubeculosus og Cul o 3 úr C. obsoletus í skordýrafrumum og hreinsa þá auk Cul n 3, Cul o 1 og Cul o 2 sem áður höfðu verið tjáðir. Einnig að setja upp ónæmispróf til að meta mótefna- og boðefnasnið í kjölfar meðferðar. Ofnæmisvakarnir voru tjáðir í skordýrafrumum með Bac-to-Bac baculoveirutjáningarkerfi með þremur mismunandi plasmíðum; pFastBac1, pFastBac-HBM-TOPO (Honey bee melittin seytiröð) og pI-secSUMOstar (Small-ubiquitin-related-modifier sem á að auka stöðugleika og leysanleika próteina). Endurraðaðar baculoveirur voru framleiddar í Sf-9 skordýrafrumum, 6xhis-merkt endurröðuð prótein í High-five skordýrafrumum og próteinin síðan hreinsuð með nikkel perlum og himnuskiljun. Tjáning, framleiðsla og hreinsuð prótein voru prófuð með coomassie litun og í ónæmisþrykki með sérvirkum mótefnum gegn próteinunum. Elísupróf (ELISA) voru sett upp til mótefnamælinga og in vitro örvun gerð á hvítfrumum fyrir boðefnaseytingu. Ofnæmisvakarnir Cul n 3, Cul n 4 og Cul o 2 voru hreinsaðir á náttúrulegu formi. Sett var upp elísupróf fyrir Cul n 3 og Cul n 4 og þeir einnig notaðir við in vitro örvun á hvítfrumum úr bólusettum hestum og boðefnaframleiðsla mæld í kjölfarið. Cul n 4 var bæði hreinsaður í fullri lengd og sem SUMOstar prótein. Óklippt Cul n 4 SUMOstar samrunaprótein reyndist nothæft í elísuprófi. Ekki tókst að hreinsa Cul n 1, Cul n 2 og Cul o 1 tjáða með HBM seytiröð á náttúrulegu formi en Cul n 1 og Cul o 1 voru nothæfir í elísupróf eftir hreinsun á afmynduðu formi. Cul n 1, Cul n 2 og Cul o 3 voru tjáðir sem SUMOstar samrunaprótein og tókst að hreinsa þau á náttúrulegu formi en þau féllu út við himnuskiljun. Örvun hvítfrumna var ekki til lykta leidd hvorki með afmynduðum próteinum né með SUMOstar samrunapróteinum. Sjö ofnæmisvakar úr smámýi voru tjáðir í skordýrafrumum og sýnt fram á að fimm þeirra séu nothæfir í próf til að meta mótefna- og boðefnaframleiðslu í…